Inga María í stjórn Visku
Ég býð mig fram til setu í stjórn Visku með það að markmiði að halda áfram að byggja upp faglegt og öflugt stéttarfélag sérfræðinga.
Mér er umhugað um stöðu réttinda og kjara háskólamenntaðs fólks á vinnumarkaði um þessar mundir og er sannfærð um að mín rödd, reynsla og yfirveguð glöggskyggni skipti miklu máli í stjórn stóra og öfluga stéttarfélagsins okkar.
Ég væri þakklát fyrir atkvæði þitt og lofa að láta gott af mér leiða fyrir okkur öll.

MÍN SÝN
Mér er umhugað um okkar réttindi
Ég býð mig fram til stjórnarsetu í Visku vegna brennandi áhuga míns á réttindum og kjörum starfandi fólks, jafnt á opinberum sem almennum vinnumarkaði, sjálfstætt starfandi sem launþegum. Mér er umhugað um stöðu allra slíkra réttinda um þessar mundir og er sannfærð um að mín rödd, reynsla og yfirveguð glöggskyggni skipti miklu máli í stjórn stóra og öfluga stéttarfélagsins okkar. Ég sat í stjórn Fræðagarðs árin 2022-23 og árið 2024 tók ég sæti í stjórn Visku. Ég tel að á þessum tíma hafi ég varpað ljósi á ýmis mál sem skipt hafa verulegu máli fyrir bæði þróun og áherslur félagsins, sett fram nýjar hugmyndir í starfseminni sem og veitt aðhald í eftirliti og rekstri. Síðastliðin tvö ár hef ég einnig setið í stjórn Orlofssjóðs BHM sem um leið er orlofssjóður Visku. Ég tel að orlofssjóðurinn og sú þjónusta sem hann býður sé og eigi að vera einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi stéttarfélaga. Þar þarf að vera manneskja með skýra sýn sem byggir á þjónustu við allt félagsfólk og ráðstöfun eigna á sem sanngjarnastan hátt, og hana tel ég mig ótvírætt hafa.
Ég lauk M.A.-gráðu í Modern European Studies frá Columbia háskóla í New York og var strax að námi loknu ráðin sem blaðamaður á menningardeild Morgunblaðsins. Síðan þá hafa öll mín störf tengst menningarstarfi á ólíkum vettvangi, ég var kynningar- og markaðsstjóri Íslensku óperunnar um sjö ára skeið, hef starfað að kynningarmálum ýmissa listahátíða í Reykjavík, hjá Borgarbókasafninu og hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Núverandi starf mitt er hjá menningar- og íþróttasviði Reykjavíkurborgar, þar sem ég starfa sem verkefnastjóri á menningarskrifstofu, og hef m.a. umsjón með margvíslegum styrkjum, verðlaunum og viðurkenningum Reykjavíkurborgar í þágu menningar og lista, sé um listamannaresidensíur bæði í Reykjavík og erlendis, sinni stjórnsýslu menningarmála og margt fleira. Ég hef setið í stjórnum og úthlutunarnefndum á sviði menningar og lista. Ég sat í stjórn Fræðagarðs á árunum 2022-23 og árið 2024 tók ég sæti í stjórn hinnar nýstofnuðu Visku. Síðastliðin tvö ár hef ég einnig setið í stjórn Orlofssjóðs BHM.

HELSTU MARKMIÐ
Byggja upp öflugt og sterkt stéttarfélag
Styddu mig til að bæta kjör félagsfólks, vera öflugur talsmaður og koma með jákvæðar breytingar í starfi Visku.
Orlofssjóður BHM
Ég er nýkjörinn formaður Orlofssjóðs BHM og tel hann mikilvægan hluta af kjörum félagsfólks í Visku. Ég vil auka möguleika fólks á að nýta sér þjónustu sjóðsins.
Þjónusta við félagsfólk
Að mínu mati er þjónusta við félagsfólkið sjálft það sem starfsemi stéttarfélaga á að snúast um. Að hafa aðgengi að starfsfólki sem vinnur með þér í þína þágu í tengslum við kjara- og réttindamál. Þannig Visku vil ég halda áfram að byggja upp.
Öflug upplýsingagjöf
Félagar í Visku þurfa að eiga greitt aðgengi að helstu upplýsingum um kjör sín og réttindi.
Sterk rödd
Viska þarf að vera sterk rödd í samfélaginu og leggja áherslu á réttindi og kjör háskólamenntaðra á vinnumarkaði.